Hvað eru stjórnunarstaðlar?

Prentvæn útgáfa

Stjórnunarstaðlar eru staðlar sem fjalla um eiginleika stjórnunarkerfa af einhverju tagi, t.d. gæðastjórnunarkerfa. Fyrirtæki styðjast við þessa staðla þegar þau vilja bæta árangur sinn með því að útfæra og innleiða slík kerfi í rekstri sínum.

Þeir stjórnunarstaðlar sem fyrirtæki styðjast við hér á landi eru langflestir alþjóðlegir, þróaðir af alþjóðlegum stofnunum eða samtökum, eins og ISO. Dæmi um vinsæla, alþjóðlega stjórnunarstaðla frá þessum aðilum eru ISO 9001 og ISO 14001. Einn stjórnunarstaðall hefur verið saminn á Íslandi. Það er jafnlaunastaðallinn ÍST 85, Jafnlaunakerfi - kröfur og leiðbeiningar.

Einstakir stjórnunarstaðlar eru auðkenndir með númerum (t.d. 9001, 14001 og 18001) og er efnislega tengdum stöðlum oft skipað í flokka eða fjölskyldur sem þá hafa gjarnan samliggjandi númer. Þannig er t.d. talað um 9000 fjölskylduna frá ISO sem hefur að geyma fjölmarga staðla sem tengjast gæðastjórnun. Þeir hafa númer sem raðast frá 9000 og 10000.

Margir þessara alþjóðlegu stjórnunarstaðla hafa verið viðurkenndir og sérstaklega gefnir út á innri markaði Evrópusambandsins og einnig á Íslandi, sbr. forskeytin EN og ÍST í heitum staðla sem Staðlaráð Íslands hefur gefið út (dæmi: ÍST EN ISO 9001). Staðlarnir ISO 9001 og ÍST EN ISO 9001 eru því efnislega einn og sami staðallinn, sá fyrri gefinn út af ISO en sá síðari af Staðlaráði Íslands.

Auk flokkunar stjórnunarstaðla í fjölskyldur, sbr. hér að framan, má einnig skipta þeim í tvo flokka eftir tilgangi þeirra, þvert á fjölskyldur. Annars vegar er talað um kröfustaðla og hins vegar um hjálparstaðla. Kröfustaðlarnir lýsa kröfum sem stjórnunarkerfi þurfa að uppfylla en hjálparstaðlarnir eru til skýringar eða benda á aðferðir og leiðir til að mæta kröfunum. Kröfustaðlarnir eru tækir til vottunar en hjálparstaðlarnir ekki. Þrátt fyrir hugtakið "kröfustaðlar" er ekki opinber krafa að að þeir séu notaðir eða að kröfur þeirra séu uppfylltar. Það er val hvers og eins.

Íslenski stjórnunarstaðallinn ÍST 85, um jafnlaunakerfi, er kröfustaðall, sem er tækur til vottunar og, ólíkt því sem gildir um aðra stjórnunarstaðla, þá er ekki valkvætt að uppfylla kröfur hans. Með lögum sem samþykkt voru 2017 og tóku gildi um áramótin 2017/2018 þá ber fyrirtækjum og stofnunum með ákveðinn fjölda starfsmanna að uppfylla hann.